Puntdúkkur og silfurskeiðar
8.9.2019 | 22:50
Það er gott þegar menn koma hreint til dyra og segja það sem þeir meina. Ragnar Önundarson verður tæplega vændur um að tala undir rós eða koma ekki hreint fram með skoðanir sínar. Í pistli á Facebook afgreiðir hann tvær stjórnmálakonur sem puntdúkkur sem eingöngu hafa hlotið frama í stjórnmálum fyrir það eitt að vera konur. Þetta er svo sem ekki nýtt að konur séu afgreiddar með þessum hætti.
Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að hæfni og hæfileikar eigi að ráða því hver er ráðin í starf eða embætti en kyn skipti engu máli þar um. Hins vegar getur verið allt í lagi að líta til kynjasjónarmiða ef karl og kona eru jafnhæf og velja þarf á milli þeirra. Sama á auðvitað við um launin. Karlar og konur eiga að fá sömu laun fyrir sömu vinnu.
En aftur að Ragnari. Hann vill sem sagt meina að Þórdís Kolbrún hafi eingöngu verið skipuð ráðherra af því hún er kona og sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins af sömu ástæðu. Ef mig minnir rétt þá lagði Haraldur Benediktsson, efsti maður á lista Sjálfstæðismanna í NV kjördæmi, það til að Þórdís yrði ráðherra þrátt fyrir að hún væri í öðru sæti á eftir Haraldi. Það gerði hann þar sem hann taldi hana hafa alla burði til að gegna slíku embætti og væri betur til þess fallinn en hann sjálfur. Framhaldið þekkja flestir. En hvernig hefur Þórdís Kolbrún staðið sig sem ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins? Að mínu mati hefur hún sínt að þar fer öflugur stjórnmálamaður sem fylgir sinni sannfæringu, kemur vel fyrir og rökstyður sína afstöðu. Ragnar vill einnig meina að Áslaug Arna hafi eingöngu verið skipuð ráðherra af því hún er kona. Vissulega er hún ung og ekki með mikla reynslu en hún hefur staðið sig vel í þinginu og ekki látið hávaðasamar gagnrýnisraddir trufla sig. Nú fær hún tækifæri til að sína hvað virkilega í henni býr. Gefur henni það tækifæri.
Annað athyglisvert sem Ragnar nefnir er hin meinta óheppni Sjálfstæðismanna í kvennamálum. Vissulega gerði Sigríður Á. Andersen mistök í landsréttarmálinu og Hanna Birna féll vegna dómgreindarbrests aðstoðarmanns síns. Aðrar konur hafa að ég held staðið sig vel í sínum störfu. En hvað með karlamálin hjá Sjálfstæðisflokknum? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið heppin í karlamálum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Saklaus uns sekt er sönnuð
28.9.2018 | 21:04
Rétt er að óska sakborningum og aðstandendum þeirra í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu til hamingju með gærdaginn. Ekki síður er það fagnaðarefni að forsætisráðherra hefur beðið hlutaðeigandi afsökunar á framferði yfirvalda á sínum tíma. Sérstaklega er framferði lögreglu og ákæruvaldsins mjög svo ámælisverð en einnig dómur Hæstaréttar. Vonandi sér lögreglan og ákæruvaldið ástæðu til að biðjast afsökunnar á sínum þætti málsins. Þá er vonandi að ljúka megi þessu máli í kjölfarið með greiðslu skaðabóta úr ríkissjóði án þess að til málaferla komi.
Sem betur fer hefur mikil breyting orðið á réttarvörslukerfinu frá því Guðmundar- og Geirfinnsmálið kom upp. Næsta óhugsandi er að viðlíka mál gæti átt sér stað núna. Meiri hætta er hins vegar á að sakborningar séu dæmdir og nánast teknir af lífi af dómstóli götunnar. Á netmiðlum og í athugasemdum fréttamiðla leyfa menn sér nefnilega að fullyrða um sekt viðkomandi án þess að hafa nokkur gögn í höndunum. Þar ættu menn að minnast þessa máls og þeirrar staðreyndar að það tók 38 ár að leiðrétta rangan dóm Hæstaréttar.
Áður en menn fullyrða um sekt sakaðra manna er gott að hugsa til þessa máls og muna að maður er saklaus uns sekt er sönnuð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Landsréttur og skipan dómara II
28.12.2017 | 14:22
Eins og áður hefur verið fjallað um á þessum vettvangi er skipun dómara við Landsrétt umdeild og sitt sýnist hverjum. Hæstiréttur hefur hins vegar með dómum frá 19. desember sl., sjá hér og hér, kveðið upp úr um að ráðherra hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem rannsókn ráðherrans var ófullnægjandi til að upplýsa málið nægjanlega, svo ráðherra væri fært að taka aðra ákvörðun um hæfi umsækjanda en dómnefnd hafði áður tekið.
Því miður er þetta ekki í fyrsta skipti sem ráðherra er dæmdur fyrir að brjóta gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þegar kemur að skipan dómara. Vonandi er þetta hins vegar síðasta skipti sem það gerist.
Af dómum Hæstaréttar er ljóst að ráðherra getur lagt til að aðrir en þeir sem taldir eru hæfastir samkvæmt mati dómnefndar verði skipaðir. Það sem ráðherra þarf hins vegar að gera er að rannsaka málið nægjanlega svo honum sé fært að taka aðra ákvörðun en dómnefnd leggur til. Vissulega má deila um hvenær rannsóknarskyldunni er fullnægt en eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar er lágmark að gera samanburð á hæfni þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu og þeirra fjögurra sem ráðherra gerði tillögu um í stað hinna fyrrnefndu. Það er einfaldlega ekki nóg að ráðherra ákveði að dómarareynsla skuli vega þyngra en eitthvað annað en gera engann samanburð um þá reynslu milli umsækjenda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Húsnæði og mannréttindi
25.7.2017 | 20:24
Niðurstaða sérfræðinganefndar Sameinuðu Þjóðanna í kærumáli spænskra hjóna gegn spænska ríkinu er einkar athyglisverð. Eins og lesa má nánar um hér, hér og hér, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að spænska ríkið hefði brotið alþjóðasamning Sameinuðu Þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi þar sem spænska ríkið gat ekki tryggt hjónunum húsnæði til að búa í eftir að þau misstu leiguíbúðina sem þau bjuggu í með börnum sínum.
Þessi niðurstaða kemur á sama tíma og mjög margir hér heima á Íslandi hafa litla sem enga möguleika á að kaupa eða leigja sér sitt eigið húsnæði. Eins eru mjög margir sem hafa varla efni á að leigja íbúðina sem þeir þó búa í, jafnvel þótt sveitarfélagið sé leigusalinn.
Eins og fram kemur í frétt Rúv hefur Ísland staðfest samninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi en ekki viðaukann um möguleika á að kæra til sérfræðinganefndar Sameinuðu Þjóðanna. Þótt Íslendingar geti ekki kært beint til nefndarinnar mun þessi niðurstaða geta haft áhrif hér á landi ef sambærilegt mál kemur upp.
Þá má einnig minna á 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar um að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fasteignaviðskipti - Danmörk/Ísland III
24.7.2017 | 21:43
Þegar ástands- og raflagnaskýrsla eignarinnar liggja fyrir er hægt að kaupa sérstaka eigendaskiptatryggingu, ejerskifteforsikring. Hægt er að kaupa tryggingu sem gildir í 5 ár eða 10 ár frá afhendingardegi eignarinnar. Tryggingin nær yfir galla, skaða eða tjón sem er til staðar á eigninni við yfirtöku eignarinnar en sem ekki er getið í ástandsskýrslunni. Allt sem fram kemur í ástandsskýrlunnum fellur utan við trygginguna.
Ef seljandi lætur vinna áðurnefndar skýrslur getur hann boðið kaupandanum eigendaskiptatrygginguna, borgað helminginn í ódýrustu tryggingunni og er í staðinn laus við annarrs 10 ára ábyrgð á þeim göllum sem til staðar voru við yfirtöku eignarinnar.
Það sem kaupandinn fær með tryggingunni er að hann þarf ekki að gera kröfu á seljanda ef eitthvað kemur upp á þar sem hann getur tilkynnt tjónið/gallan til síns tryggingafélags og fengið tjónið/gallan bættan þaðan. Þannig þarf hann hvorki að treysta á að seljandi sé borgunarmaður fyrir tjóninu né situr hann heldur uppi með tjónið sjálfur.
Bæði seljandi og kaupandi fá þannig eitthvað fyrir sinn snúð og ekki að ástæðulausu að fólk kaupir þessa tryggingu. Mikilvægt er hins vegar fyrir kaupanda að hafa í huga að ef hann velur að kaupa ekki trygginguna, sem seljandi hefur boðið honum, getur kaupandi almennt ekki gengið á seljanda ef einhver galli/tjón reynist vera á eigninni.
Bloggar | Breytt 25.7.2017 kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fasteignaviðskipti - Danmörk/Ísland II
19.7.2017 | 19:56
Í fasteignaviðskiptum í Danmörku er það viðurkennt að bæði seljandi og kaupandi þurfa að vita sitthvað um ástand eignarinnar. Það er ekki nóg að kaupandi komi einu sinni og skoði eignina áður en gengið er frá kaupunum og flutt er inn. Danir eru ekki eins hrifnir af hugtakinu "þetta reddast" eins og við Íslendingar.
Áður en gengið er frá fasteignakaupum í Danmörku er venjan að seljandi panti eins konar úttekt á eigninni í formi ástandsskýrslna. Þessar skýrslur eru annars vegar ástandsskýrsla eignarinnar, tilstandsrapport, og hins vegar sérstök skýrsla um rafkerfi eignarinnar, El-rapport. Skýrslur eru útbúnar af verkfræðingum, tæknifræðingum eða öðrum sérfræðingum á þessum sviðum. Þótt það sé seljandi sem pantar þessar skýrslur er það klárt að sá sem útbýr skýrsluna er ekki að vinna fyrir seljanda eða gæta hagsmuna annarhvors aðilans. Skýrsluhöfundur fær borgað fyrir vinnu sína hvort sem húsið selst eða ekki. Skýrslunar eru að forminu til staðlaðar og eins uppbyggðar þar sem hverjum hluta eignarinnar er gefin einkunn. Fyrir áhugasama er hér sýnishorn af ástandsskýrslu eignar.
Þegar skýrslurnar eru tilbúnar er hægt að kaupa sérstaka tryggingu hjá flestum tryggingafélögum landsins til að tryggja sig gegn ýmsu sem upp getur komið - jafnvel þótt ástand sé metið sérstaklega og skrifaðar skýrslur.
Meira um það í næsta pistli....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fasteignaviðskipti - Danmörk/Ísland
18.7.2017 | 22:28
Uppspretta þessara skrifa um fasteignaviðskipti í Danmörku og á Íslandi má rekja til þess að ég hef persónulega reynslu af því að kaupa og selja fasteign á Íslandi og í Danmörku. Það verður að segjast eins og er að munurinn er mjög mikill og meiri en ég hafði búist við í upphafi.
Það fyrsta sem skiptir máli er að fasteignasalinn ber eingöngu ábyrgð gagnvart seljanda og hann vinnur beinlínis fyrir seljandann og ekki kaupandann, skv. dönsku fasteignalögunum. Mjög skýrt dæmi um mikilvægi og nauðsyn þessarar aðgreiningar er fréttin af visir.is fyrir skömmu, sjá nánar hér.
Þótt fasteignasalar séu upp til hópa heiðarlegir og stundi sína vinnu af fagmennsku er ekki hægt að líta framhjá því að verkefni fasteignasalans er að selja eignina. Hann fær eignina í sölumeðferð þar sem eigandi fasteignar leitar til hans í upphafi. Fasteignasali fær sín laun með því að selja eignina og því hefur hann beina hagsmuni af sölunni. Að fasteignasali eigi bæði að gæta hagsmuna seljanda og kaupanda virðist kannski vera góð hugmynd til að spara kostnað en hugmyndin býður hættunni heim eins og dæmin sanna.
Framhald síðar.....
Bloggar | Breytt 19.7.2017 kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Uppreist æra og lögmannsréttindi
18.6.2017 | 22:36
Skiptir einhverju máli þótt dæmdur barnaníðingur eða morðingi hljóti uppreist æru og fái lögmannsréttindi sín aftur? Hann er jú búin að taka út sína refsingu og á þannig sama rétt og allir aðrir til að taka þátt samfélaginu og snúa aftur til sinna fyrri starfa.
Almennt held ég að fólk vilji og sé tilbúið til að gefa dæmdum brotamanni annað tækifæri er hann líkur afplánun sinnar refsingar. Hann er þannig búin að gera upp sína skuld við samfélagið. Að því sögðu er ekki sjálfgefið að fólk sé tilbúið að veita viðkomandi öll fyrri réttindi, sérstaklega ekki einhver sérréttindi.
Þótt lögmenn séu oft umdeildir ber fólk ákveðna virðingu fyrir lögmönnum og trúir þeim og treystir í verkum sínum. Þegar lögmaður brýtur af sér verður rof á þessum trúnaði og trausti. Auðvitað eru lögmenn bara venjulegt fólk sem geta gert mistök. En þegar þeir brjóta lögin jafn illilega og níðast á saklausum börnum eða taka líf einhvers er erfitt og jafnvel ómögulegt að fyrirgefa slíkan verknað. Alveg sama þótt viðkomandi hafi lokið afplánun og leitað sér aðstoðar.
Afstaða fólks hefur ekkert með hefnd eða illgirni að gera. Þetta snýst um siðferði. Það er einfaldlega siðferðislega rangt að veita lögfræðingi lögmannsréttindi aftur ef hann er dæmdur barnaníðingur eða morðingi.
Alveg sama ætti í hlut á t.d. læknir, lögreglumaður eða kennari fremdi slíkan verknað. Mjög fáir myndu treysta dæmdum barnaníðing eða morðingja til að vera kennari, læknir eða lögreglumaður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Lögreglan og vopnin
12.6.2017 | 23:44
Umræðan um vopnaburð lögreglunnar er góð og gild og í raun fullkomlega eðlilegt að ræða þessi mál. Á hin almenna lögregla að bera vopn dags daglega í störfum sínum? Eða á lögreglan ekki að hafa aðgang að neinum vopnum? Á kannski að vera einhver deild innan lögreglunnar sem hefur aðgang að vopnum til að bregðast við ógnunum og hættum?
Sem betur fer búum við í landi þar sem lögreglan getur almennt og nær alltaf sinnt sínum verkefnum án þess að bera vopn eða beyta vopnum. En sem betur fer búum við líka í landi þar sem lögreglan hefur aðgang að vopnum enda er Ísland í grunninn ekkert öðruvísi en önnur lönd. Það er fullt af fólki sem á byssur, hnífa og önnur vopn sem það notar t.d. á veiðum eða öðrum tilgangi.
Nú er aðalumræðan vopnaburður lögreglunnar um nýliðna helgi í kringum litahlaupið í Reykjavík og fleiri viðburði. Eins og oft áður fór umræðan strax í þann farveg að lögreglan væri að vígbúast, hún væri þungvopnuð og hin almenna lögregla ætti ekki að bera vopn á fjölskylduskemmtunum. Ég var ekki í Reykjavík um nýliðna helgi og get því kannski ekki metið til fulls hversu víðtækar aðgerðir lögreglunnar voru í reynd. Af fréttamyndum að dæma var vopnaburðurinn þó ekki verulegur. Sérsveitamennirnir voru með skammbyssu á sér. Ég leyfi mér að efast um að fólk hafi almennt tekið eftir því að þeir væru með þessa byssu á sér.
Margir vísa í upplifun sína af vopnaburði lögreglunnar í þeim löndum sem það hefur komið til og fundist það óþægilegt að sjá vopnaða lögreglu á götum úti. Vissulega er það ekkert spennandi. Ég hef upplifað það í Danmörku að ganga framhjá byggingu sem þungvopnuð lögregla gætti. Tilbúnir að beita vopnum sínu ef ógn steðjaði að. Hvað sem okkur finnst um vopnaburð lögreglunnar verð þó að gera greinarmun á því er lögreglumenn ganga um götur með vélbyssu í hendinni, tilbúnir að beita henni, og því er sérsveit íslensku lögreglunnar gengur um með skammbyssu í slíðri sínu.
Ein áhugaverð röksemdafærsla gegn vopnaburði lögreglunnar er að ef sérsveit lögreglunnar beri vopn muni glæpamenn taka upp þá venju að bera vopn. Væntanlega er gert ráð fyrir að þeir ætli sé þá að beyta þessum vopnum gegn lögreglunni. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þetta en vonandi verður þessi röksemdafærsla útskýrð nánar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Landsréttur og skipun dómara
29.5.2017 | 22:41
Enn eina ferðina stefnir í deilur um skipan dómara, núna er það hin nýstofnaði Landsréttur. Hæfisnefnd um skipun dómara hefur skilað áliti sýnu um hverjir teljist hæfastir til að hljóta skipun við réttinn. Lögum samkvæmt skal dómnefndin meta hver/hverjir teljist hæfastir og ber ráðherra að fara eftir því mati við endanlega skipun í embætti. Hins vegar getur ráðherra farið gegn þessu mati með stuðningi Alþingis. Sú staða er einmitt kominn upp. Dómsmálaráðherra leggur til skipun fjögurra dómara sem ekki voru taldir hæfastir að mati dómnefndarinnar. Helstu rök ráðherrans, um að reynsla af dómarastörfum skuli vega þyngra en nefndin gerir, er að mörguleiti góð og gild. Hér er jú nýr dómstóll á ferðinni sem breytir dómstólaskipaninni talsvert mikið. Hins vegar verður ráðherran að fara að lögum eins og aðrir.
Eitt sem verður áhugavert að fylgjast með er hvernig þingið tekur á þessum tillögum ráðherrans. Formaður Lögmannafélags Íslands og Ástráður Haraldsson, einn umsækjanda um dómarastöðurnar, telja að ráðherrann sé að brjóta lög. Á sama tíma er kynjahlutfallið eins jafnt og mögulegt er. Mun sú staðreynd breyta einhverju í huga þingsins?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)