Lögreglan og vopnin

Umræðan um vopnaburð lögreglunnar er góð og gild og í raun fullkomlega eðlilegt að ræða þessi mál. Á hin almenna lögregla að bera vopn dags daglega í störfum sínum? Eða á lögreglan ekki að hafa aðgang að neinum vopnum? Á kannski að vera einhver deild innan lögreglunnar sem hefur aðgang að vopnum til að bregðast við ógnunum og hættum?

Sem betur fer búum við í landi þar sem lögreglan getur almennt og nær alltaf sinnt sínum verkefnum án þess að bera vopn eða beyta vopnum. En sem betur fer búum við líka í landi þar sem lögreglan hefur aðgang að vopnum enda er Ísland í grunninn ekkert öðruvísi en önnur lönd. Það er fullt af fólki sem á byssur, hnífa og önnur vopn sem það notar t.d. á veiðum eða öðrum tilgangi.

Nú er aðalumræðan vopnaburður lögreglunnar um nýliðna helgi í kringum litahlaupið í Reykjavík og fleiri viðburði. Eins og oft áður fór umræðan strax í þann farveg að lögreglan væri að vígbúast, hún væri þungvopnuð og hin almenna lögregla ætti ekki að bera vopn á fjölskylduskemmtunum. Ég var ekki í Reykjavík um nýliðna helgi og get því kannski ekki metið til fulls hversu víðtækar aðgerðir lögreglunnar voru í reynd. Af fréttamyndum að dæma var vopnaburðurinn þó ekki verulegur. Sérsveitamennirnir voru með skammbyssu á sér. Ég leyfi mér að efast um að fólk hafi almennt tekið eftir því að þeir væru með þessa byssu á sér.

Margir vísa í upplifun sína af vopnaburði lögreglunnar í þeim löndum sem það hefur komið til og fundist það óþægilegt að sjá vopnaða lögreglu á götum úti. Vissulega er það ekkert spennandi. Ég hef upplifað það í Danmörku að ganga framhjá byggingu sem þungvopnuð lögregla gætti. Tilbúnir að beita vopnum sínu ef ógn steðjaði að. Hvað sem okkur finnst um vopnaburð lögreglunnar verð þó að gera greinarmun á því er lögreglumenn ganga um götur með vélbyssu í hendinni, tilbúnir að beita henni, og því er sérsveit íslensku lögreglunnar gengur um með skammbyssu í slíðri sínu.  

Ein áhugaverð röksemdafærsla gegn vopnaburði lögreglunnar er að ef sérsveit lögreglunnar beri vopn muni glæpamenn taka upp þá venju að bera vopn. Væntanlega er gert ráð fyrir að þeir ætli sé þá að beyta þessum vopnum gegn lögreglunni. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þetta en vonandi verður þessi röksemdafærsla útskýrð nánar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband