Puntdúkkur og silfurskeiðar

Það er gott þegar menn koma hreint til dyra og segja það sem þeir meina. Ragnar Önundarson verður tæplega vændur um að tala undir rós eða koma ekki hreint fram með skoðanir sínar. Í pistli á Facebook afgreiðir hann tvær stjórnmálakonur sem puntdúkkur sem eingöngu hafa hlotið frama í stjórnmálum fyrir það eitt að vera konur. Þetta er svo sem ekki nýtt að konur séu afgreiddar með þessum hætti.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að hæfni og hæfileikar eigi að ráða því hver er ráðin í starf eða embætti en kyn skipti engu máli þar um. Hins vegar getur verið allt í lagi að líta til kynjasjónarmiða ef karl og kona eru jafnhæf og velja þarf á milli þeirra. Sama á auðvitað við um launin. Karlar og konur eiga að fá sömu laun fyrir sömu vinnu.

En aftur að Ragnari. Hann vill sem sagt meina að Þórdís Kolbrún hafi eingöngu verið skipuð ráðherra af því hún er kona og sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins af sömu ástæðu. Ef mig minnir rétt þá lagði Haraldur Benediktsson, efsti maður á lista Sjálfstæðismanna í NV kjördæmi, það til að Þórdís yrði ráðherra þrátt fyrir að hún væri í öðru sæti á eftir Haraldi. Það gerði hann þar sem hann taldi hana hafa alla burði til að gegna slíku embætti og væri betur til þess fallinn en hann sjálfur. Framhaldið þekkja flestir. En hvernig hefur Þórdís Kolbrún staðið sig sem ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins? Að mínu mati hefur hún sínt að þar fer öflugur stjórnmálamaður sem fylgir sinni sannfæringu, kemur vel fyrir og rökstyður sína afstöðu. Ragnar vill einnig meina að Áslaug Arna hafi eingöngu verið skipuð ráðherra af því hún er kona. Vissulega er hún ung og ekki með mikla reynslu en hún hefur staðið sig vel í þinginu og ekki látið hávaðasamar gagnrýnisraddir trufla sig. Nú fær hún tækifæri til að sína hvað virkilega í henni býr. Gefur henni það tækifæri. 

Annað athyglisvert sem Ragnar nefnir er hin meinta óheppni Sjálfstæðismanna í kvennamálum. Vissulega gerði Sigríður Á. Andersen mistök í landsréttarmálinu og Hanna Birna féll vegna dómgreindarbrests aðstoðarmanns síns. Aðrar konur hafa að ég held staðið sig vel í sínum störfu. En hvað með karlamálin hjá Sjálfstæðisflokknum? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið heppin í karlamálum?


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband