Landsréttur og skipan dómara II
28.12.2017 | 14:22
Eins og áður hefur verið fjallað um á þessum vettvangi er skipun dómara við Landsrétt umdeild og sitt sýnist hverjum. Hæstiréttur hefur hins vegar með dómum frá 19. desember sl., sjá hér og hér, kveðið upp úr um að ráðherra hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem rannsókn ráðherrans var ófullnægjandi til að upplýsa málið nægjanlega, svo ráðherra væri fært að taka aðra ákvörðun um hæfi umsækjanda en dómnefnd hafði áður tekið.
Því miður er þetta ekki í fyrsta skipti sem ráðherra er dæmdur fyrir að brjóta gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þegar kemur að skipan dómara. Vonandi er þetta hins vegar síðasta skipti sem það gerist.
Af dómum Hæstaréttar er ljóst að ráðherra getur lagt til að aðrir en þeir sem taldir eru hæfastir samkvæmt mati dómnefndar verði skipaðir. Það sem ráðherra þarf hins vegar að gera er að rannsaka málið nægjanlega svo honum sé fært að taka aðra ákvörðun en dómnefnd leggur til. Vissulega má deila um hvenær rannsóknarskyldunni er fullnægt en eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar er lágmark að gera samanburð á hæfni þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu og þeirra fjögurra sem ráðherra gerði tillögu um í stað hinna fyrrnefndu. Það er einfaldlega ekki nóg að ráðherra ákveði að dómarareynsla skuli vega þyngra en eitthvað annað en gera engann samanburð um þá reynslu milli umsækjenda.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.