Húsnæði og mannréttindi

Niðurstaða sérfræðinganefndar Sameinuðu Þjóðanna í kærumáli spænskra hjóna gegn spænska ríkinu er einkar athyglisverð. Eins og lesa má nánar um hérhér og hér, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að spænska ríkið hefði brotið alþjóðasamning Sameinuðu Þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi þar sem spænska ríkið gat ekki tryggt hjónunum húsnæði til að búa í eftir að þau misstu leiguíbúðina sem þau bjuggu í með börnum sínum. 

Þessi niðurstaða kemur á sama tíma og mjög margir hér heima á Íslandi hafa litla sem enga möguleika á að kaupa eða leigja sér sitt eigið húsnæði. Eins eru mjög margir sem hafa varla efni á að leigja íbúðina sem þeir þó búa í, jafnvel þótt sveitarfélagið sé leigusalinn. 

Eins og fram kemur í frétt Rúv hefur Ísland staðfest samninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi en ekki viðaukann um möguleika á að kæra til sérfræðinganefndar Sameinuðu Þjóðanna. Þótt Íslendingar geti ekki kært beint til nefndarinnar mun þessi niðurstaða geta haft áhrif hér á landi ef sambærilegt mál kemur upp.

Þá má einnig minna á 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar um að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.  

 

  

 


Fasteignaviðskipti - Danmörk/Ísland III

Þegar ástands- og raflagnaskýrsla eignarinnar liggja fyrir er hægt að kaupa sérstaka eigendaskiptatryggingu, ejerskifteforsikring. Hægt er að kaupa tryggingu sem gildir í 5 ár eða 10 ár frá afhendingardegi eignarinnar. Tryggingin nær yfir galla, skaða eða tjón sem er til staðar á eigninni við yfirtöku eignarinnar en sem ekki er getið í ástandsskýrslunni. Allt sem fram kemur í ástandsskýrlunnum fellur utan við trygginguna.     

Ef seljandi lætur vinna áðurnefndar skýrslur getur hann boðið kaupandanum eigendaskiptatrygginguna, borgað helminginn í ódýrustu tryggingunni og er í staðinn laus við annarrs 10 ára ábyrgð á þeim göllum sem til staðar voru við yfirtöku eignarinnar.

Það sem kaupandinn fær með tryggingunni er að hann þarf ekki að gera kröfu á seljanda ef eitthvað kemur upp á þar sem hann getur tilkynnt tjónið/gallan til síns tryggingafélags og fengið tjónið/gallan bættan þaðan. Þannig þarf hann hvorki að treysta á að seljandi sé borgunarmaður fyrir tjóninu né situr hann heldur uppi með tjónið sjálfur. 

Bæði seljandi og kaupandi fá þannig eitthvað fyrir sinn snúð og ekki að ástæðulausu að fólk kaupir þessa tryggingu. Mikilvægt er hins vegar fyrir kaupanda að hafa í huga að ef hann velur að kaupa ekki trygginguna, sem seljandi hefur boðið honum, getur kaupandi almennt ekki gengið á seljanda ef einhver galli/tjón reynist vera á eigninni. 


Fasteignaviðskipti - Danmörk/Ísland II

Í fasteignaviðskiptum í Danmörku er það viðurkennt að bæði seljandi og kaupandi þurfa að vita sitthvað um ástand eignarinnar. Það er ekki nóg að kaupandi komi einu sinni og skoði eignina áður en gengið er frá kaupunum og flutt er inn. Danir eru ekki eins hrifnir af hugtakinu "þetta reddast" eins og við Íslendingar.

Áður en gengið er frá fasteignakaupum í Danmörku er venjan að seljandi panti eins konar úttekt á eigninni í formi ástandsskýrslna. Þessar skýrslur eru annars vegar ástandsskýrsla eignarinnar, tilstandsrapport, og hins vegar sérstök skýrsla um rafkerfi eignarinnar, El-rapport. Skýrslur eru útbúnar af verkfræðingum, tæknifræðingum eða öðrum sérfræðingum á þessum sviðum. Þótt það sé seljandi sem pantar þessar skýrslur er það klárt að sá sem útbýr skýrsluna er ekki að vinna fyrir seljanda eða gæta hagsmuna annarhvors aðilans. Skýrsluhöfundur fær borgað fyrir vinnu sína hvort sem húsið selst eða ekki. Skýrslunar eru að forminu til staðlaðar og eins uppbyggðar þar sem hverjum hluta eignarinnar er gefin einkunn. Fyrir áhugasama er hér sýnishorn af ástandsskýrslu eignar.

Þegar skýrslurnar eru tilbúnar er hægt að kaupa sérstaka tryggingu hjá flestum tryggingafélögum landsins til að tryggja sig gegn ýmsu sem upp getur komið - jafnvel þótt ástand sé metið sérstaklega og skrifaðar skýrslur.

Meira um það í næsta pistli....


Fasteignaviðskipti - Danmörk/Ísland

Uppspretta þessara skrifa um fasteignaviðskipti í Danmörku og á Íslandi má rekja til þess að ég hef persónulega reynslu af því að kaupa og selja fasteign á Íslandi og í Danmörku. Það verður að segjast eins og er að munurinn er mjög mikill og meiri en ég hafði búist við í upphafi.

Það fyrsta sem skiptir máli er að fasteignasalinn ber eingöngu ábyrgð gagnvart seljanda og hann vinnur beinlínis fyrir seljandann og ekki kaupandann, skv. dönsku fasteignalögunum. Mjög skýrt dæmi um mikilvægi og nauðsyn þessarar aðgreiningar er fréttin af visir.is fyrir skömmu, sjá nánar hér.  

Þótt fasteignasalar séu upp til hópa heiðarlegir og stundi sína vinnu af fagmennsku er ekki hægt að líta framhjá því að verkefni fasteignasalans er að selja eignina. Hann fær eignina í sölumeðferð þar sem eigandi fasteignar leitar til hans í upphafi. Fasteignasali fær sín laun með því að selja eignina og því hefur hann beina hagsmuni af sölunni. Að fasteignasali eigi bæði að gæta hagsmuna seljanda og kaupanda virðist kannski vera góð hugmynd til að spara kostnað en hugmyndin býður hættunni heim eins og dæmin sanna.

Framhald síðar.....  

 

 

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband